Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 6. júní 2014
Tilv.: FJR13120074/16.2.5

Efni: Kæra vegna útreiknings á endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Með bréfi, dags. 13. desember 2013, barst ráðuneytinu kæra vegna þeirrar ákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 31. október 2013, að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatt vegna vinnu við nýbyggingu frístundahúsnæðis að […], […], um kr. 89.460 eða úr kr. 1.602.224 í kr. 1.512.764. Ríkisskattstjóri hafnaði endurgreiðslu virðiskaukaskatts þar sem vinna við deiluskipulag og akstur væri ekki endurgreiðslubær, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, með síðari breytingum. Með ákvörðuninni var kæranda þannig synjað um endurgreiðslu að fjárhæð kr. 27.540 vegna vinnu arkitekts við gerð deiliskipulags annars vegar og um kr. 61.920 vegna aksturs hins vegar. Í kærunni til ráðuneytisins er gerð krafa um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð kr. 75.681. Í framhaldi óskaði ráðuneytið eftir því með bréfi, dags. 18. desember 2013, að ríkisskattstjóri gæfi umsögn um málið, sbr. m.a. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málavextir
Málavextir eru þeir að kærandi óskaði eftir endurgreiðslu virðisaukskatts vegna vinnu manna við frístundahúsnæði að […], […], til eigin nota. Um var að ræða tímabilið júlí-ágúst 2013. Ríkisskattstjóri lækkaði fjárhæð endurgreiðslunnar um kr. 89.460 þann 31. október 2013. Kærandi mótmælir umræddri lækkun með kæru til ráðuneytisins, dags. 13. desember 2013, eða því sem nemur kr. 75.681. Kærandi telur það ekki hafa komið nógu skýrt fram á reikningi [A], kt. […], hversu langan tíma það hafi tekið sækja efni til smíðanna og fara með sorp og hafi ríkisskattstjóri ofáætlað tímanna að baki þeirri vinnu. Þá hafi ríkisskattstjóri ekki fallist á endurgreiðslu reiknings frá [B], kt. […], arkitekt [C] fyrir vinnu við breytingar á deiluskipulagi við […], […]og […]. Kærandi heldur þó fram að í þessu tilviki sé hönnuður að breyta deiliskipulagi og telur því umrædda vinnu falla undir sem hönnun samkvæmt bráðabirgðaákvæði XV. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. einnig reglugerð nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæðis auk annarra húsnæðis sem væri alfarið í eigu sveitarfélaga. Með vísan til þessa rökstuðnings kæranda telur hann sig eiga rétt á endurgreiðslu að fjárhæð kr. 75.681.

Í framhaldi kærunnar óskaði ráðuneytið eftir því með bréfi, dags. 18. desember 2013, að ríkisskattstjóri gæfi umsögn um málið, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umsögn ríkisskattstjóra barst ráðuneytinu þann 10. febrúar 2014. Ríkisskattstjóri rakti málavexti og vísaði til þess að kæruefnið varðaði 2. mgr. 42. gr., sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Þá væri það mat ríkisskattstjóra að túlka bæri ákvæði reglugerðar nr. 440/2009 með hliðsjón af almennum reglum ákvæða 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og reglugerðar nr. 449/1990, þ.e að aðeins skyldi endurgreiða virðisaukaskatt vegna vinnu á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur á íbúðar- og frístundahúsnæði og vegna hönnunar og eftirlits við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald sams konar húsnæðis. Varðandi fyrri lið ákvörðunar ríkisskattstjóra, þ.e. að hafna endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar þjónustu arkitekts samkvæmt sölureikningi nr. 922, þá kom fram í texta reikningsins að um breytingu væri að ræða á deiluskipulagi vegna þriggja frístundahúsalóða að […], […] og […] í […]. Kærandi taldi að umrædd vinna við deiluskipulagið félli undir hönnun skv. bráðabirgðaákvæði XV laga nr. 50/1988, sbr. einnig reglugerð nr. 440/2009. Með vísan til málavaxta þá taldi ríkisskattstjóri að honum hafi réttilega borið að óska eftir frekari gögnum frá kæranda varðandi þennan lið, þ.e. frekari sundurliðun og greinargerð um hið selda samkvæmt reikningum. Af þeim sökum taldi ríkisskattstjóri rétt að vísa bæri þessum lið málsins til hans að nýju til endurákvörðunar.

Varðandi síðari lið ákvörðunar ríkisskattstjóra þá telur hann að það hafi legið fyrir samkvæmt endurgreiðslubeiðni kæranda að hann hafi sótt um endurgreiðslu vegna vinnu verktaka á byggingarstað af heildarupphæð án virðisaukaskatts samkvæmt fimm reikningum, útgefnum af [D], nr. 242-246. Við athugun á þeim reikningum hafi ekki verið tilgreint sérstaklega að um vinnu á byggingarstað væri að ræða, þrátt fyrir ákvæði þar um í reglugerð nr. 449/1990. Þá væri magn og einingarverð heldur ekki tilgreint á reikningunum, sbr. ákvæði 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, sbr. einnig 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattskyldra aðila. Einingafjöldi komi þó fram á vinnuskýrslum sem væru meðfylgjandi hverjum reikningi og næmi hann samtals 1.015,5 tímum og samkvæmt því greinast reikningarnir eftir einingafjölda, heildarfjárhæð með og án virðisaukaskatts og einingarverði, einnig með og án virðisaukaskatts, og meðalverð á hverja einingu. Ríkisskattstjori vísaði til þessi að hann fengi ekki séð að samkvæmt umræddum reikningum að innheimt hafi verið sérstaklega fyrir akstur sem væri þó greinilega innifalinn í heildarfjárhæð reikninganna samkvæmt vinnuskýrslum sem voru þeim meðfylgjandi. Ríkisskattstjóri segir að svo virðist sem að hann hafi með ákvörðun sinni 31. október 2013 áætlað aksturinn 46,5 tíma á kr. 5.222 án virðisaukaskatts, sbr. einingaverð samkvæmt reikningi nr. 242 og lækkað þannig fjárhæð til endurgreiðslu sem því nemur, eða um kr. 61.920 samkvæmt reikningum nr. 243-246, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. og 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Kærandi viðurkennir í kærunni að akstursliðir komi ekki nægjanlega skýrt fram á reikningunum en að ríkisskattstjóri hafi ofáætlað þann leið þar sem aksturstímar væru alls 11,5 tímar en ekki 46,5 tímar líkt og ríkisskattstjóri hélt fram, sbr. yfirlit með kæru kæranda til ráðuneytisins. Ríkisskattstjóri tekur fram að við málsmeðferð hans megi athuga að í stað þess að gera viðeigandi athugasemdir við reikningana og krefja kæranda um nánari sundurliðun vinnu á byggingarstð og akstri þar sem ekki væri útilokað að um meiri akstur væri að ræða en haft var til hliðsjónar við ákvörðun hans þann 31. október 2013. Í því sambandi benti ríkisskattstjóri á færslur þann 24. júní og 1. júlí á vinnuskýrslu meðfylgjandi reikningi nr. 242 sem og að verktakinn ræki starfsemi sína í frá […] en byggingarstaður væru í […]. Með hliðsjón af framangreindu tekur ríkisskattstjóri fram að honum hafi borið við ákvörðun um endurgreiðslu kæranda að gera viðeigandi athugasemdir við fram lagða reikninga og krefja kæranda nánari upplýsinga og sundurliðunar á m.a. aðkeyptri þjónustu arkitekts, vinnu á byggingarstað og á akstri, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem að slíku hafi ekki verið gætt þá væri það mat ríkisskattstjóra að vísa bæri málinu í heild til hans að nýju en ákveði ráðuneytið að taka kæruna til efnislegrar meðferðar þá væri það mat hans að kærandi hafi ekki heimild til frekari endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Með bréfi, dags. 23. apríl 2014, sendi ráðuneytið kæranda umsögn ríkisskattstjóra, dags. 10. febrúar 2014, til að gefa honum kost á að gera athugasemdir. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu vegna þessa.


Forsendur og niðurstaða
Kæruefnið varðar 2. mgr. 42. gr., sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skal m.a. endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við byggingarstað sem og af þjónustu vegna hönnunar og eftirlits við nýbyggingu þess háttar húsnæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. gr. reglugerðar nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæðis auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga, sem sett er á grundvelli bráðabirgðaákvæðis.

Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í því samhengi ber að nefna að ríkisskattstjóri skal við ákvarðanatöku óska eftir frekari gögnum og upplýsingum úr hendi kæranda þegar svo ber við. Með hliðsjón af málavöxum verður að telja að við ákvörðun um endurgreiðslu kæranda þann 31. október 2013 hafi ríkisskattstjóra borið að gera viðeigandi athugasemdir við fram lagða reikninga og krefja kæranda nánari upplýsinga og sundurliðunar á m.a. aðkeyptri þjónustu arkitekts, vinnu á byggingarstað og á akstri. Þar sem þess var ekki gætt er það mat ráðuneytisins að vísa beri málinu í heild til ríkisskattstjóra að nýju.

Úrskurðarorð
Kærunni til ráðuneytisins, dags. 13. desember 2013, er vísað í heild til ríkisskattstjóra til töku nýrrar ákvörðunar um beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð kr. 75.681.


Fyrir hönd ráðherra




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum